Háskóli Íslands

Tómarúm í efnahagsumræðunni

Jónas Haralz hefði orðið hundrað ára 6. október síðastliðinn. Af því tilefni héldu Hagfræðistofnun og Seðlabankinn málþing í Odda, stofu 101, 21. nóvember. Þar töluðu þeir Jón Sigurðsson, sem lengi var forstjóri Þjóðhagsstofnunar, og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Seðlabankinn bauð fundargestum síðan veitingar í kaffistofunni í Odda. Þingið sóttu tæplega 60 manns og mátti í þeim hópi sjá gamla samstarfsmenn Jónasar og raunar líka gamla og nýja samstarfsmenn frummælenda.

Jónas var að sögn Jóns Sigurðssonar ,,í reynd helsti efnahagsráðunautur ríkisstjórna í tólf ár, 1957-1969, og hafði mótandi áhrif á hagstjórn á Íslandi allan þann tíma og reyndar miklu lengur.“ Sérstaklega kvað að Jónasi við myndun Viðreisnarstjórnarinnar 1959 og eftir að hún tók til starfa, en þá voru gerðar margar breytingar í frjálsræðisátt í efnahagsmálum. Jón ræddi einnig almennt um markmið hagstjórnar og sjálfstæði Seðlabanka. Hann sagði að lokum frá samstarfi þeirra Jónasar á Efnahagsstofnuninni, forvera Þjóðhagsstofnunar, og víðar. Ræðu Jóns má finna hér.

Erindi Ásgeirs nefndist Hundrað ára hagstjórn. Þar fór hann í nokkuð löngu máli yfir stjórn efnahagsmála fyrr og nú og ný viðfangsefni þar. Helsta ályktun hans var að meira máli skipti við stjórn peningamála að fara eftir leikreglum, en það hvort viðmiðið væri gullfótur, stöðugt gengi eða stöðugt verðlag. Hann ræddi einnig kynni sín af Jónasi, en Ásgeir starfaði á fyrstu árum aldarinnar á Hagfræðistofnun, þar sem Jónas hafði aðstöðu. Þeir áttu ýmislegt samstarf, en þegar Jónas veiktist, vorið 2010, unnu þeir að riti um hagsögu 20. aldar á Íslandi. Glærur Ásgeirs má finna hér.

Í þessu sambandi er fróðlegt að grípa niður í samtal Ólafs Hannibalssonar við þá Jónas Haralz og Jón Sigurðsson í Jólablaði Vísbendingar 2007 - tæpu ári fyrir hrun bankanna. 

Krónan 

Jón: ,,Ég held að fæstum geti blandast hugur um það að íslenska myntsvæðið er minna en það sem kalla mætti kjörstærð á myntsvæði, svo að ég vísi óbeint til frægrar greinar eftir Robert Mundell frá 1961... Þá var valið annað hvort að tengjast stærra myntsvæði - og í því efni er kosturinn að flestra áliti einn: Að tengjast Evrópusambandinu með aðild að Efnahags- og myntbandalaginu, þ.e. evrusvæðinu - eða reka myntkerfi af því tagi sem við höfum glímt við frá árinu 2001. Í raun og veru er kannski ekki eins mikill munur á þessu tvennu og mönnum gæti virst, því að til þess að reka farsællega sjálfstæða mynt  með verðbólgumarkmiði og stýrivöxtum sem stjórntæki, þurfa Íslendingar að koma á því ,,jafnvægi í efnahagsmálum “ sem er forsenda fyrir aðild að ...evrusvæðinu...Það stendur engin auðveld leið til boða út úr þessum vanda. En hins vegar tel ég að það séu ákveðnar hættur í því fólgnar að reyna að halda áfram að reka þennan minnsta gjaldmiðil heims sem sjálfstæða mynt í ólgusjó hnattvæddra fjármagns- og gjaldeyrismarkaða.“

Stöðugleika eða framkvæmdir?

Jónas: ,,Þegar við svipumst um yfir öldina alla virðist mér það mest áberandi að átökin hafa sífellt staðið um stöðugleikann og framkvæmdirnar. Á að leggja áhersluna á jafnvægi og frjálsræði í efnahagsmálum og þann hagvöxt og velferð sem því fylgir til lengdar? Eða á að flýta sér, gefa hvers konar framkvæmdum lausan tauminn og grípa til margvíslegra ráðstafana? Síðari leiðin er sú sem oftast hefur orðið fyrir valinu.“   

Tómarúm í efnahagsumræðunni

Jónas: ,,Ég er krítískur á starfsemi greiningardeilda bankanna. Ég sé ekki vel tilganginn með þeim. Þær eru mikið í fjölmiðlunum. Það sem þær segja um almenna efnahagsþróun er lítils virði...Okkur vantar óháða stofnun. Þjóðhagsstofnun var lögð niður og ég held að það hafi verið mistök...Nú er ekkert nema tómarúm og ríkisstjórnina sjálfa vantar alla leiðbeiningu. 

Jón: ,,Ég tek undir með Jónasi, þótt okkur sé báðum málið skylt, að það er eftirsjá að Þjóðhagsstofnun... Uppistaðan í efnahagsfréttunum um þessar mundir... er efni frá greiningardeildum bankanna. Það er auðvelt að taka undir með Jónasi, að það væri æskilegt að ,,hlutlausari“ aðilar hefðu hér stærra rúm…“

Jónas: ,,...sem hefðu einhvern snefil af skynsemi. Eitthvað um málið að segja, því að greiningardeildirnar þora lítið að segja vegna margvíslegra viðskiptatengsla sinna stofnana.“

 

Samtal Ólafs Hannibalssonar, Jóns Sigurðssonar og Jónasar Haralz má finna hér.

 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is