Háskóli Íslands

Gæti umgjörð Þjóðarsjóðs orðið fyrirmynd fyrir lífeyrissjóði?

Gert er ráð fyrir að svonefndur Þjóðarsjóður, sem á að taka við arðgreiðslum af eign ríkisins í orkufyrirtækjum, verði ávaxtaður í útlöndum. Í greinargerð er þetta meðal annars skýrt með því að mikilvægt sé að koma í veg fyrir að sjóðurinn verði notaður í viðskiptapólitískum tilgangi. Í umsögn Hagfræðistofnunar um frumvarpið eru talin fleiri rök fyrir þessu, meðal annars um áhættudreifingu og hættu á eignaverðsbólum. Hagfræðingar nefna þá tilhneigingu að fjárfesta í nánasta umhverfi heimabjögun eða heimaslagsíðu. Bent er á að flest rök fyrir því að ávaxta Þjóðarsjóð erlendis eigi líka við um annan skyldusparnað landsmanna, lífeyrissjóðina. Spurt er hvort ekki væri rétt að íhuga að taka upp sömu reglu um þá. Að síðustu er minnt á að miklar arðgreiðslur af orkulindum séu ekki í hendi. Því er velt upp hvort þátttaka ríkisins í áhættusömum atvinnurekstri sé ekki óþarfur milliliður að þeim neyðarsjóði, sem hér sé fyrirhugaður, og hvort andvirði fjárfestinga þess í orkuframleiðslu væri ekki betur komið í dreifðri verðbréfaeign í útlöndum.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is