Háskóli Íslands

Rætt um lyf, rafmagnsverð, útflutning hráefna og nýjar reglur um fasteignalán á þjóðarspegli

Fjörugar umræður urðu á málstofu um skilvirkni markaða á þjóðarspegli 1. nóvember síðastliðinn. Ágúst Arnórsson ræddi áhrif afnáms sérleyfa á lyfsölumarkaði. Fram kom meðal annars að afslættir frá hámarksverði á lyfjum væru mestir á höfuðborgarsvæðinu. Þar væri mest samkeppni lyfsala, en á stórum svæðum utan höfuðborgarinnar væri öll lyfsala í höndum eins fyrirtækis. Þórólfur Matthíasson benti á að í drögum að nýjum lögum um verðtryggingu væri hjónum á aldrinum 35-45 ára með yfir 600 þúsund króna samanlögð mánaðarlaun torveldað að taka lán til 40 ára. Í þessum hópi væru til dæmis læknar, nýkomnir úr námi, sem ættu að jafnaði auðvelt með að borga lán. Forystumenn félaga ófaglærðra verkamanna hefðu beitt sér fyrir þessu, en breytingarnar mundu lítil áhrif hafa á umbjóðendur þeirra. Ragnar Árnason færði rök að því að óheftur útflutningur hráefna gæti dregið úr landsframleiðslu. Sigurður Jóhannesson varaði við hugmyndum um að gera rafmagnssölu til stórfyrirtækja leyfisskylda. Með því fengju almennir notendur þau skilaboð að orkan væri ódýrari en hún væri í reynd. Orku yrði sóað. Glærur af málstofunni má finna hér .

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is