Háskóli Íslands

Hvernig má rétta hlut drengja í grunnskólum?

Stúlkur standa sig að jafnaði betur en drengir á samræmdum prófum í grunnskóla. Einkunnamunurinn eykst stöðugt milli fjórða og sjöunda bekkjar og sjöunda og tíunda bekkjar. Munurinn er meiri í íslensku en stærðfræði.

Búseta nemenda virðist hafa áhrif á mældan kynjamun í námsárangri.

Brottfall drengja er mun meira en stúlkna í framhaldsskólum, en það birtist meðal annars í því að fleiri konur ljúka stúdentsprófi en karlar. Svo hefur verið frá árinu 1978. Nálega tvær konur ljúka námi á háskólastigi á hvern karlmann.

Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að stúlkur haldi ‚,einkunnaforskoti“ sínu (að meðaltali) úr bóknámi í grunnskóla yfir á hærri menntastig. Á sama tíma skýrir hátt brottfall drengja úr framhaldsskóla hve fáir karlar ljúka hlutfallslega námi á háskólastigi. Einnig varpa niðurstöðurnar ljósi á athyglisverða skiptingu kynjanna á námsgreinar á háskólastigi.

Þetta kemur fram í vinnupappír Gísla Gylfasonar og Gylfa Zoega sem sjá má hér.

Höfundar leggja til að höfðað verði til styrks drengja með því að auka samkeppni og áhættutöku í námi. Minnt er á að dregið hafi verið úr gildi prófa í grunnskóla undanfarin ár, en tekið upp flókið símat í staðinn. Þá leggja þeir til að verklegt nám verði aukið í grunnskólum og að karlar verði hvattir til að fara í kennaranám, til dæmis með því að bjóða þeim hagstæð námslán. 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is