Háskóli Íslands

Verðsamkeppni er ekki hörð í lyfsölu á Íslandi

Fjölgun apóteka á höfuðborgarsvæðinu eru augljósustu áhrifin af afnámi sérleyfa í lyfsölu skömmu fyrir aldamót. Á höfuðborgarsvæðinu og nokkrum öðrum helstu þéttbýlissvæðum geta flestir neytendur valið milli nokkurra lyfsala, en utan þessara svæða er í hæsta lagi eitt apótek í næsta nágrenni. Í öllum landshlutum nema á Vestfjörðum eru 90% þéttbýlisbúa eða fleiri í innan við 10 mínútna akstursfjarlægð frá næsta apóteki. Á Vestfjörðum er hlutfallið nú aðeins rúm 60% og það hefur lækkað töluvert undanfarin ár. 

 

Lyf, sem seld eru gegn lyfseðli, eru dýrari á Íslandi en í grannlöndunum, en munurinn er ekki mikill samkvæmt nýjustu tölum. Hér eru hins vegar miklu færri lyf í boði hér en í grannlöndunum. Framboðið er um þriðjungur af því sem er í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Dregið hefur verið á ýmsan hátt úr umstangi við að koma lyfjum á markað hér, en markaðurinn er lítill og það skýrir að hluta lítinn áhuga lyfjaframleiðenda. En einnig er bent á að strangar hömlur á verðlagningu dragi úr áhuga þeirra. Heildsöluverð á lyfseðilsskyldum lyfjum má ekki vera hærra hér en meðalverð í öðrum norrænum ríkjum, en um sjúkrahúslyf og sérstaklega dýr lyf gildir að innkaupsverð skal ekki vera yfir lægsta verði í öðrum norrænum ríkjum.

Afkoma lyfsala er að jafnaði svipuð og gengur og gerist í smásöluverslun hér á landi, en lyfsölukeðjurnar tvær, sem hafa mesta markaðshlutdeild, skila mun meiri hagnaði en aðrir. Þá vekur athygli að viðskiptavild er rúmur þriðjungur eigna lyfsala, en það þýðir allajafna að fyrirtæki hafa keypt sig inn í rentu eða hagnað, sem er umfram það sem búast má við með því að skoða efnislegar eignir. Mestöll viðskiptavildin er hjá stærstu keðjunni, Lyfju. 

Afkoma lyfjaheildsala er betri en gengur og gerist hjá heildsölum hér á landi, en afkoma lyfjadreifingarfyrirtækja hefur versnað nokkuð síðustu ár. 

Hið opinbera ákveður hámarksverð á lyfjum, sem seld eru gegn lyfseðli, bæði í heildsölu og smásölu. Smásalar geta slegið af verðinu og að jafnaði eru lyfseðilsskyld lyf aðeins ódýrari hjá litlum apótekum en hjá stóru keðjunum tveimur, en ekki verður séð að verðsamkeppni sé hörð á þessum markaði. Núgildandi lyfjalög veita ekki mikið svigrúm til þess að koma upplýsingum um verð á lyfseðilsskyldum lyfjum til neytenda. Skapa mætti þrýsting á verð með því að auðvelda neytendum að bera saman kjör sem apótek bjóða. Það mundi sérstaklega koma þeim að gagni sem nota sams konar lyf í langan tíma.  

Um þetta má lesa í nýrri skýrslu sem Hagfræðistofnun vann fyrir heilbrigðisráðuneytið. Skýrslan var rýnd af óháðum rýnum utan stofnunarinnar. 

 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is