Háskóli Íslands

Mestur vöxtur frá hruni á Suðurlandi, Suðurnesjum og Norðurlandi eystra

Frá bankahruni hefur framleiðsla aukist mest á Suðurlandi, Suðurnesjum og Norðurlandi eystra. Hagvöxtur frá 2008 til 2016 var 18% á Suðurlandi, 17% á Suðurnesjum og 15% á Norðurlandi eystra. Meðalvöxtur á landinu öllu var 10% á sama tíma. Mikinn vöxt á Suðurlandi má að miklu leyti rekja til ferðamannastraumsins, en flestir erlendir ferðamenn, sem hingað koma, skoða Gullfoss, Geysi og aðra ferðamannastaði á Suðurlandi. En vöxtur, sem hér er talinn vera á Suðurlandi, tengist að hluta umsvifum á höfuðborgarsvæðinu, því að hér er framleiðsla talin verða til þar sem starfsmenn eiga heima. Margir hafa flúið hátt húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu og sest að í vestanverðri Árnessýslu og öðrum grannbyggðum höfuðborgarsvæðisins, Akranesi og Suðurnesjum. Sennilega sækir á annað þúsund manns í vestanverðri Árnessýslu vinnu vestur yfir Hellisheiði á hverjum degi. Mikinn hagvöxt á Suðurnesjum má að mestu leyti rekja til aukinna umsvifa á Keflavíkurflugvelli. Hagvöxtur á Norðurlandi er í reynd afmarkaður við Akureyri og nágrenni. Vöxtur hefur bæði verið í iðnaði og greinum sem tengja má við ferðaþjónustu, en einnig skiptir máli að fáar greinar dragast saman þar. 

Skýrsla um hagvöxt landshluta 2008-2016 er unnin í samvinnu við Byggðastofnun. Hana má sjá á vefsíðu Hagfræðistofnunar, hér

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is