Háskóli Íslands

Margir sinna fólki sem ferðast um friðuð svæði

Margir þjóna ferðamönnum á friðuðum svæðum hér á landi og í næsta nágrenni við þau. Víða vegur þjónustan þungt í atvinnulífi. Til dæmis má ætla að hátt á þriðja hundrað manns starfi að ferðaþjónustu í grennd við Mývatn. Þetta er um það bil fjórðungur af íbúum næstu hreppa, Mývatnssveitar og Þingeyjarsveitar, sem ætla má að séu á vinnumarkaði. Líklegt er að stærra hlutfall íbúa Mývatnssveitar hafi atvinnu af ferðamennsku. Þá má gera ráð fyrir að nálægt 100 manns í næsta nágrenni Landmannalauga þjóni fólki á leið þangað. Að auki má nefna að líklegt er að um það bil 25 manns sinni að jafnaði ferðamönnum í grennd við Hvítserk á austanverðu Vatnsnesi og álíka margir sinna fólki á ferð við Dynjanda í Arnarfirði. Tölur um áhrif friðaðra svæða á atvinnu og annað efnahagslíf í næsta nágrenni fengust meðal annars með viðtölum á svæðunum sjálfum, en þær voru sannreyndar með spurningum sem beint var til ferðaþjónustufyrirtækja og athugun á skattagögnum. Friðun fyrir raski þarf ekki að bera með sér hnignun atvinnulífs. Þjónusta við ferðamenn bætist við atvinnutækifæri bænda, en sauðfjárrækt er óvíða full atvinna. 

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar, sem sjá má hér.

Skýrslan var ritrýnd af tveim óháðum sérfræðingum á sviðinu. 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is