Háskóli Íslands

Tekist á um virði lax- og silungsveiða

Flugufréttir og Hagfræðistofnun stóðu fyrir fundi um virði lax- og silungsveiða í Ægisgarði, Örfirisey, að morgni 15. nóvember síðastliðins. Þar kynnti dr. Oddgeir Ottesen nýja skýrslu Hagfræðistofnunar, en auk hans töluðu Guðrún Sigurjónsdóttir, bóndi á Glitstöðum í Norðurárdal, og Ingimundur Bergsson, stofnandi veiðikortsins. Fundargestir voru rúmlega 30. Einn af skýrslubeiðendum hafði haft á orði að höfundur væri greinilega vanur veiðimaður, en Oddgeir hóf mál sitt á því að segja að hann hefði aldrei veitt fisk. Fjörugar umræður urðu um framsöguna. Talsmenn fiskeldisfyrirtækja spurðu margs framan af, eða þar til fundarstjóra fannst tímabært að aðrir kæmust að, en orðaskipti voru yfirveguð og ró frummælanda var ekki raskað. Fram kom að tölur um tekjur og kostnað af veiðileyfasölu væru traustar, en þær eru bæði byggðar á ársreikningum og samtölum við tvö hundruð bændur. Kostnaður er aðeins um fjórðungur af tekjum veiðibænda. Spurt var hvort ekki hefði átt að koma fram hvað mörg störf tengdust veiðunum: ,,Hvort finnst þér betra að margir eða fáir vinni fyrir þessum 5 milljörðum?" var svarað. Mun meiri óvissa væri um ábata veiðimanna en hagnað landeigenda. Í lokin talaði Oddgeir um að fleiri gleddust yfir því að hægt væri að veiða lax og silung en veiðimennirnir sjálfir. Líffræðileg fjölbreytni, sem kölluð er, væri mikils virði út af fyrir sig, en rannsóknir benda til þess að sérstæður laxastofn sé í flestum laxveiðiám á Íslandi. Ísland hefði verið aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni frá 1994, en ríkisendurskoðun teldi að aðildin hefði lítil áhrif á stefnu stjórnvalda. Varúðarregla samningsins segir að ekki megi nota skort á þekkingu sem átyllu fyrir því að fresta aðgerðum til þess að vernda fjölbreytni í náttúrunni. Vafa ber með öðrum orðum að túlka náttúrunni í hag. Ríkisendurskoðun telur að rétt kunni að vera að festa þessa reglu í lög. 

Glærur Oddgeirs má finna hér http://hhi.hi.is/annad_efni

Í máli Guðrúnar kom fram að tekjur af laxveiði væru kjölfesta í afkomu margra bænda í Borgarfirði. Ingimundur ræddi meðal annars um ánægjuna sem margir veiðimenn hefðu af veiðunum. Hún væri mikils virði.  

  

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is