Háskóli Íslands

Ávinningur sjávarútvegs af samningi um Evrópskt efnahagssvæði allt að 3% af verðmæti útflutnings

Árið 1990 nam innflutningstollur, sem Evrópubandalagið lagði á íslenskar sjávarafurðir, 3,6% af verðmæti þeirra. Um 40% voru lögð á saltfisk, 37% á nýjan fisk, en tollur á frystan fisk var 12% fjárhæðarinnar. Samkvæmt samningnum um Evrópskt efnahagssvæði, sem tók gildi í upphafi árs 1994, varð mestur hluti sjávarafurða sem Íslendingar fluttu til annarra landa svæðisins nánast tollfrjáls. Með því að nýta upplýsingar um viðbrögð kaupenda og seljenda við verðbreytingum (mælingar á verðteygni) má áætla hvernig tollalækkunin skiptist milli íslenskra fiskútflytjenda og neytenda í Evrópusambandinu. Niðurstaðan er sú að ágóði fiskútflytjenda af samningnum hafi numið allt að 3% af verðmæti útflutningsins. Þetta er hámark, því að ekki er horft til þess, meðal annars, að keppinautar Íslendinga á fiskmörkuðum í sunnanverðri Evrópu, Norðmenn, högnuðust meira á samningnum en Íslendingar. Áður en samningurinn gekk í gildi voru hærri tollar á norskum fiski en íslenskum, en eftir það nutu Norðmenn og Íslendingar svipaðra kjara.  

Um þetta og fleiri áhrif samningsins um Evrópskt efnahagssvæði á hag Íslendinga er rætt í skýrslu á vef Hagfræðistofnunar, hhi.hi.is/skyrslur . Skýrslan var unnin fyrir utanríkisráðuneytið. Ekki verður séð að efnahagshlið samningsins hafi áður verið skoðuð á kerfisbundinn hátt, en fróðleg umfjöllun um samninginn er í ritgerð Guðmundar Jónssonar prófessors í seinna bindi Líftaugar landsins, sem út koma fyrir jól 2017. Nú er sem kunnugt er hafin lögfræðileg úttekt á Efnahagssvæðinu. 

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is