Háskóli Íslands

Ekki þarf að umbylta rafmagnsmarkaði

Undanfarin ár hafa erlendir ráðgjafar og fleiri lýst áhyggjum af framboði á rafmagni til íslensks almennings og innlendra fyrirtækja. Því er haldið fram að rafmagnssalar íhugi að selja stórnotendum rafmagn sem nú fer á almennan markað. Í skýrslu um öryggi á rafmagnsmarkaði eru nefndar nokkrar leiðir til þess að tryggja framboð á rafmagni á almennum markaði: 

*Verð taki mið af aðstæðum á markaði. Ef stórnotendur bjóða hátt verð fyrir rafmagn er eðlilegt að verð á almennum markaði hækki. 

*Íhugað verði að greiða úr sameiginlegum sjóðum fyrir afl til rafmagnsframleiðslu.

*Landsvirkjun bjóði aftur samninga til lengri tíma en eins árs á heildsölumarkaði.

*Stefnt verði að því að almennum notendum bjóðist samningar um rafmagn til lengri tíma en nú. 

*Íhugað verði að leyfa stórnotendum að selja rafmagn beint inn á almennan markað. 

*Flutningskerfi verði eflt, svo að hætta á staðbundnum skorti minnki.

*Þar til bætt verður úr ágöllum á flutningskerfinu má bregðast við staðbundnum aðstæðum með svæðisbundnu rafmagnsverði.

Almennt eru markaðslausnir betur fallnar til þess að skapa hagkvæma niðurstöðu en bein inngrip í markaðinn, þar sem framleiðendur væru til dæmis skyldaðir til þess að selja rafmagn á almennum markaði eða ef sala til stórnotenda væri háð leyfum. 

Skýrsla um öryggi á almennum markaði með rafmagn er á heimasíðu Hagfræðistofnunar, http://hhi.hi.is/skyrslur

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is