Háskóli Íslands

Iðnaðarmenn og kennarar eldast

Menntun Íslendinga hefur breyst mikið undanfarin ár. Hlutfall háskólamenntaðra hefur hækkað en hlutfall þeirra sem hafa grunnskólapróf eða minna hefur lækkað. Hlutfall fólks á aldrinum 25 til 64 ára sem hefur grunnskólapróf eða minna hefur lækkað um ríflega 9% og hlutfall þeirra sem hefur háskólapróf hækkað um tæplega 11% síðan 2008. Ungu fólki með háskólapróf fjölgar hraðar – og konum með háskólapróf fjölgar líka hratt. Árið 2017 voru 39% karla á aldrinum 30-49 ára með háskólapróf og hefur hlutfallið hækkað úr 32% árið 2008. Hlutfall kvenna á sama aldri með háskólapróf hækkaði á sama tíma úr 41½% í 60%. Íslendingar virðast enn vera eftirbátar annarra norðurlandaþjóða í menntun, þó að ekki muni miklu. Fleiri eru með háskólapróf en í meðaltali OECD-ríkja, en lægra hlutfall hefur lokið framhaldsmenntun, þar á meðal iðnmenntun.

Ríflega 60% þeirra sem eiga að baki kennaranám eða nám í menntunarfræðum sinna sérfræðistörfum við kennslu eða uppeldisfræði. Þetta hlutfall hefur haldist nokkuð jafnt síðan 2008. Kennarastéttin eldist – nýliðun er ekki mikil. Á árunum frá 2008 til 2017 hækkaði meðalaldur fólks með kennaramenntun úr rúmum 44 árum í tæp 48. Fjórðungur er á aldrinum 55 til 64 ára árið 2017 og hefur hlutfallið hækkað úr 16% árið 2008. Aðeins 11-12% eru á aldrinum 24 til 34 ára og hefur það hlutfall lækkað úr 22% 2008. Hlutfall kvenna er svipað og áður, um 80%. Konur eru líka í miklum meirihluta í heilbrigðisgeiranum. Hlutfall kvenna af þeim sem eru með menntun í heilbrigðisfræðum og vinna í þeim geira var 85½% árið 2017 og hafði hækkað um tæp 4% frá 2008. Hlutfall fólks með heilbrigðismenntun sem vinnur sérfræðistörf í heilbrigðisgeiranum fer heldur hækkandi og er um 62% 2017. Meðal kvenna hækkaði það úr 62% í 67% frá 2008 til 2017, en það lækkaði heldur meðal karla.  

Meðalaldur iðnaðarmanna hækkar jafnt og þétt. Þeir sem eiga að baki hvers kyns byggingarmenntun og vinna að byggingum voru að jafnaði 45½ árs árið 2008, en 48½ árs 2017. Karlar á aldrinum 55 til 64 ára voru 34½% þessa flokks árið 2017, en 21% árið 2008.

Um þetta og fleira er fjallað í skýrslu um færniþörf á vinnumarkaði sem finna má á heimasíðu Hagfræðistofnunar.  

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is