Háskóli Íslands

Skynsamlegt að bjóða út alþjónustu í póstflutningum

Nokkur ár eru síðan einkaréttur á póstflutningum var afnuminn með öllu í Evrópusambandinu. Höggvið hefur verið í einkaleyfi Íslandspósts hér á landi, en enn hefur hann einkarétt á að bera út bréf sem eru innan við 50 g að því gefnu að burðargjald sé innan við 2½-falt lágmark. Um leið og sá einkaréttur verður afnuminn skal samkvæmt Evrópureglum tryggja grunnpóstþjónustu, eða alþjónustu. Alþjónusta felst í að bréfum sé safnað að minnsta fimm sinnum í viku og þau borin út jafnoft. Tiltekið er hvað hver tegund af póstsendingum má vera lengi á leiðinni. Í mörgum Evrópuríkjum borgar hið opinbera fyrir þessa þjónustu, en ekki alls staðar. Víða hefur verið gefinn afsláttur af skilyrðum Evrópusambandsins um alþjónustu, enda hefur þörf fyrir bréfasendingar minnkað svo að um munar með netinu. 

Mat Hagfræðistofnunar er að dýrast sé að halda uppi alþjónustu í sveitum. Hún gæti útheimt um 300 milljóna króna ríkisstuðning á ári. Að auki gæti tap á dreifingu A-pósts, sem bera skal út daginn eftir að hann er póstlagður, numið 125 milljónum á ári að óbreyttu, en sennilega mætti komast fyrir þann halla að miklu leyti með því að hækka burðargjald. Þá kostar þjónusta við blinda og fleira um 20 milljónir á ári.  

Erlendis hefur alþjónusta oftast verið falin gamalgrónum póstfyrirtækjum eins og Íslandspósti. En meira aðhald að kostnaði fengist með því að bjóða þjónustuna út. Almannaþjónusta hefur víða verið boðin út með góðum árangri, meðal annars hér á landi.

Um þetta er fjallað í skýrslu sem Hagfræðistofnun gerði fyrir innanríkisráðuneytið, en finna má hana á vefsíðu Hagfræðistofnunar: http://hhi.hi.is/sites/hhi.hi.is/files/sjz/postskyrlsalaest7mars2018.pdf .

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is