Háskóli Íslands

Lífeyrissjóðir beina fjárfestingum trúlega meira til útlanda á næstunni

Um þessar mundir eru nærri 80% af eignum íslenskra lífeyrissjóða hér á landi. Alls eiga sjóðirnir nálægt þriðjungi af öllum verðmætum á Íslandi, eins og Hagstofan metur þau. Sjóðirnir áttu rúm 40% skráðra hlutabréfa hér á landi í árslok 2016. Þessar tölur hafa valdið nokkrum ugg. Til dæmis hefur verið vakin athygli á því að dregið geti úr samkeppni þegar sömu eigendur eða skyldir eigi mörg fyrirtæki í sömu atvinnugrein. Þá kunni hvati til nýsköpunar að minnka.

 

En fleira mælir gegn því að lífeyrissjóðir einskorði fjárfestingar að svo miklu leyti við Ísland. Það stangast til dæmis á við sjónarmið um áhættudreifingu. Óvarlegt er líka að hafa stóran hluta eigna á sama stað og tekna er aflað. Í skýrslu, sem Hagfræðistofnun gerði nýlega fyrir starfshóp um hlutverk lífeyrissjóða í íslensku efnahagslífi, er horft á hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóða í átta löndum. Hlutfallið er næstlægst á Íslandi, þótt það sé langminnsta hagkerfið. Sérstaklega er erfitt að sjá rök fyrir því að sjóðirnir kaupi mikið af hlutabréfum hér á landi. Í aldarfjórðung hefur ávöxtun íslenskra hlutabréfa sveiflast meira í krónum talið en heimsvísitala hlutabréfa. Í þróuðum ríkjum er heimaslagsíða almennt miklu minni í hlutabréfasöfnum lífeyrissjóða en í skuldabréfasöfnum þeirra. Slagsíðan hefur víðast hvar minnkað mikið undanfarin ár.

 

Árið 2017 var höftum á fjárfestingar Íslendinga í útlöndum að fullu aflétt, en þau höfðu staðið frá 2008. Lífeyrissjóðunum er nú frjálst að kaupa eignir í útlöndum og líklegt er að hlutfall erlendra eigna af heildareignum vaxi. Í skýrslunni er gert ráð fyrir að hlutfallið fari í ríflega 40% á 25 árum. Sjóðirnir sjálfir stækka líka og hlutur þeirra í íslensku efnahagslífi á því sennilega enn eftir að vaxa. En ef lífeyrissjóðir færa hlutabréfaeign sína að miklu leyti til útlanda á komandi árum, eins og mælt er með í skýrslunni, minnkar sú ógn sem samkeppni íslenskra fyrirtækja kann að stafa af sjóðunum.

Ekki er útilokað að breytt eignasamsetning lífeyrissjóðanna veiki krónuna á komandi árum og áratugum, en vísbendingar eru um að áhrifin verði ekki mikil og að þau minnki með tímanum.

 

Skýrslan var rýnd af tveim sérfræðingum í fjármálum og samkeppnismálum. Hana má finna á vef Hagfræðistofnunar: http://hhi.hi.is/sites/hhi.hi.is/files/sjz/lifeyrissjodir_lokaskjal_25okt_0.pdf .

 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is