Háskóli Íslands

Samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði hefur haft mikil áhrif á íslenskt efnahagslíf

Erfitt er að meta heildaráhrif aðildar að Evrópsku efnahagssvæði á íslenskt efnahagslíf. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins taldi að framleiðsla í sambandinu væri tæpum 2% meiri í upphafi aldarinnar en verið hefði ef innri markaður sambandsins hefði ekki komið til. Innri markaðurinn var byggður á sömu meginhugmyndum og Evrópskt efnahagssvæði, það er frjálsum flutningum vöru og þjónustu, fólks og fjármagns. Innri markaðurinn gekk að sumu leyti lengra en Evrópskt efnahagssvæði, en á móti kemur að frjáls viðskipti þjóða koma smáþjóðum allajafna að meira gagni en þeim sem eru fjölmennari. 

Áþreifanlegustu áhrifin af aðild Íslands voru lækkun tolla á íslenskum fiski. Færa má rök að því að ávinningur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja hafi verið allt að 3% af verðmæti þess sjávarfangs sem Íslendingar fluttu til Evrópusambandslanda. Hlutur aðildarlanda Evrópsks efnahagssvæðis í vöruútflutningi Íslendinga hefur vaxið úr tæpum 2/3 hlutum áður en samningurinn var gerður í tæplega 4/5. Samræmdar viðskiptareglur á svæðinu auðvelda fyrirtækjum að hasla sér völl utan heimamarkaðs og stuðla þannig að fjölbreyttari útflutningi. Enn eru þó um það bil 80% af vöruútflutningi héðan afurðir tveggja stærstu greinanna, sjávarútvegs og stóriðju.

Með aðild að Evrópsku efnahagssvæði skuldbundu Íslendingar sig til þess að taka upp viðskiptareglur Evrópusambandsins. Samkeppni hefur í kjölfarið verið innleidd á mörkuðum þar sem hún tíðkaðist ekki áður, til dæmis í símaþjónustu og rafmagnsframleiðslu. Vísbendingar eru um að íslenskir neytendur hafi hagnast á breytingunni.

Skýrsla um áhrif aðildar Íslendinga að Evrópsku efnahagssvæði er á heimasíðu Hagfræðistofnunar, www.hhi.hi.is . Skýrslan er gerð fyrir utanríkisráðuneytið. Lokið var að mestu við hana vorið 2016, en gengið var frá henni til birtingar nú í byrjun nýs árs.  

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is