Háskóli Íslands

Stefnir í að rafbílar verði hagkvæmur kostur

Rafbílar eru dýrari í innkaupi en bensínbílar, en reksturinn kostar minna. Með skattaafslætti  borgar sig nú þegar fyrir suma að eiga rafbíl, en dæmið breytist þegar horft er á þjóðhagslegan kostnað. Núvirtur heildarkostnaður við að eiga og reka Nissan Leaf er enn um 7% meiri en sams konar bensínbíls, samkvæmt niðurstöðum nýrrar skýrslu Hagfræðistofnunar (sjá http://www.hhi.hi.is/skyrslur). Horft er á kostnað fyrir skatta. Innkaupsverð og rafhlöðuskipti eru rafbílum í óhag, en orka og almennt viðhald ódýrara. Góðurhúsaáhrif eru lítil af rafmagnsbílum og hávaði minni en af öðrum bifreiðum, en þessir liðir vega mjög létt í heildarmyndinni. Þá hafa ekki verið tekin með í dæmið ýmis óþægindi sem fylgja rafbílum. Lengri tíma tekur að hlaða þá en að fylla á bensínbíla og þeir komast skemmra á fullum geymi en bensínbílar með fullan tank. Einkum vill drægnin minnka í kulda. Net hraðhleðslustöðva er enn sem komið er gisið og verra er að verða rafmagnslaus en bensínlaus. Reynsla af rafmagnsbílum er enn stutt og margir forðast þá af þeim sökum. Enn sem komið er henta ódýrir rafbílar best í innanbæjarsnatt. Jón Þorvaldur Heiðarsson komst árið 2011 að þeirri niðurstöðu að núvirtur, þjóðhagslegur kostnaður af rekstri rafbíls væri 20-30% meiri en bensínbíls. Athugun hans er ekki alveg sambærileg við þá sem hér er kynnt. Til dæmis horfir hann ekki á ama af gróðurhúsaáhrifum og hávaða - en þessir kostnaðarliðir vega reyndar létt í athugun Hagfræðistofnunar, eins og fyrr sagði. Ljóst er að kostnaður við rafbíla hefur minnkað hraðar en kostnaður af bensínbílum. Ef svo fer fram sem horfir verður ódýrara að reka rafbíl  en bensínbíl frá sjónarhóli þjóðfélagsins eftir nokkur ár. Hér verður þó að ítreka að ýmis óþægindi við rafbíla hafa ekki verið tekin með í dæmið. Mestar vonir hljóta að vera bundnar við að drægni ódýrra rafbíla vaxi. Þá gætu þeir orðið hagkvæmur kostur þegar á allt er litið - jafnvel sem eini heimilisbíllinn.

 

Skýrslan var ritrýnd af tveim óháðum sérfræðingum á sviðinu.

 

 

 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is